Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023

2. mál á 153. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að breyta ýmsum lögum sem tengjast tekju- eða gjaldahlið ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2023.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að krónutöluskattar (kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, bifreiðagjald og gjald á áfengi og tóbak) hækki um 7,7%. Sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins og gjöld sem kveðið er á um í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þá er lagt til að dregið verði úr afslætti áfengisgjalds og tóbaksgjalds sem lagt er á í tollfrjálsum verslunum. Gert er ráð fyrir að sérstakt 5% vörugjald verði lagt á öll ný ökutæki með skráða losun koltvísýrings sem ekki eru sérstaklega tilgreind í tiltekna undirflokka. Þá er lagt til að sérstakt 5% vörugjald skuli lagt á allar nýjar fólksbifreiðar sem knúnar eru vetni eða rafhreyfli að öllu leyti. Þá er stefnt að tvöföldun á lágmarksfjárhæð bifreiðagjalds. Gera á breytingar á eftirlitsgjaldi til að standa undir áætluðum kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlits og skilavalds innan Seðlabanka Íslands. Flestar aðrar breytingar tengjast framlengingu bráðabirgðaákvæða.

Breytingar á lögum og tengd mál

Alls er verið að breyta 24 lögum.
  • Skylt mál: Fjárlög 2023, 1. mál (fjármála- og efnahagsráðherra) á 153. þingi (13.09.2022)

Kostnaður og tekjur

Gjöld
Tillaga í frumvarpinu um óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að útgjöld vegna vaxtabóta nema 1,9 milljörðum króna á árinu 2023. Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs við gerð hættumats verði 140 milljónir kr.

Tekjur
Verðlagsuppfærsla krónutölugjalda mun auka tekjur ríkissjóðs um 5,3 milljarða kr. Hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals um 600 milljónum kr. Hækkanir á gjöldum sem falla undir lög um aukatekjur ríkissjóðs nema samtals um 500 milljónum kr. Áætlað er að breytingar á álagningu vörugjalda á ökutæki skili ríkissjóði 2,7 milljörðum kr. og að tvöföldun á lágmarki bifreiðagjalds 2,2 milljörðum kr. Gert er ráð fyrir að minni afsláttur af áfengi og tóbaki í tollfrjálsri verslun leiði til 700 milljóna kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð. Áætlað er að breytingar á verðmætagjaldi vegna sjókvíaeldis skili ríkissjóði um 500 milljónum kr.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum.


Síðast breytt 28.03.2023. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.